Morgunverðarfundur fræðslunefndar 25 maí 2016

Næsti morgunverðarfundur félagsins verður haldinn í Víkingssal Hótel Natura (gamla Hótel Loftleiðir).

Efni fundarins er: „Tölvu- og upplýsingaöryggi ásamt öryggi tækja IoT“

Tveir sérfræðingar fjalla um efnið, hvor með sína nálgun.
Björn Símonarson, sérfræðingur í tölvuöryggismálum hjá Syndis sem er leiðandi fyrirtæki með sérhæfingu í tölvuöryggismálum. Björn er menntaður rafmagnstæknifræðingur með margra ára reynslu af kerfisrekstri á loftvarnarkerfi og hernaðarfjarskiptum. Hann sat í öryggisvottunarnefndum hjá NATO fyrir Íslands hönd á meðan hann starfaði fyrir Varnarmálastofnun og Ríkislögreglustjóra. Hjá Syndis starfar hann fyrst og fremst við öryggisúttektir með áherslu á raunverulegar tölvurárásir, m.a. gagnaleka og æfingar gegn tölvuinnbrotum,  ásamt tölvurannsóknum (Forensics) og hefur unnið slík verkefni fyrir leiðandi innlend fyrirtæki ásamt verkefnum fyrir alþjóðleg fyrirtæki.
Í fyrirlestrinum fjallar Björn um öryggismál tækja sem falla undir skilgreininguna “Internet of Things”. Það er margt sem fellur undir þessa skilgreiningu og mörg þessara tækja hafa verið í kring um okkur í langan tíma. Sýnt verður fram á hvernig er hægt að eiga samskipti við öryggiskerfi og hvernig hægt er á endanum að sniðganga þau. Björn mun einnig koma með ýmis raundæmi sem hann hefur tekist á við í verkefnum, innanlands sem utan. 


Svavar Ingi Hermannsson er einn af helstu sérfræðingum landsins  í tölvuöryggismálum. Svavar hefur sérhæft sig í tölvuöryggi síðustu 20 ár og hefur gengt ýmsum störfum tengt forritun og ráðgjöf í tölvuöryggi (innbrotsprófanir, veikleikagreiningar, kóðarýni, stjórnun upplýsingaöryggis (þar á meðal ISO/IEC 27001, PCI DSS og PA DSS)). Svavar hefur kennt við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Svavar var formaður faghóps um öryggismál hjá Skýrslutæknifélaginu 2007-2012. Svavar hefur haldið fjölda fyrirlestra á viðburðum á Íslandi, Bretlandi, Bandaríkjunum, Þýskalandi og Úkraínu m.a. OWASP, BSides, Hacker Halted Europe og UISGCon. Svavar er með ýmsar gráður, m.a.: CISSP, CISA og CISM.
Á fundinum mun Svavar koma inn á hvernig upplýsingaöryggismál eru að þróast almennt auk þess að taka fyrir mikilvægi innri- (og ytri-) tölvuendurskoðunar. Hann verður með nokkur mjög góð dæmi um t.d. hvernig hann gat á 15 mín komist yfir kerfisstjóraaðgang að fjárhagskerfi í gegnum vef aðila í einni öryggisúttektinni. Þá ætlar hann að fara yfir þá þætti sem við vitum núna í tengslum við lekan tengt Panama skjölunum og hvernig hefði mögulega verið hægt að koma í veg fyrir hann. Það leggur ennþá meiri áherslu á mikilvægi upplýsingaöryggis og innri tölvuendurskoðunar auk þess að leggja áherslu á að bregðast þurfi við ábendingum innri endurskoðunar.
Athugið að fundurinn hefst kl. 8:20 og lýkur kl. 10:00 en morgunverður verður í boði frá kl. 8:00. Vinsamlegast skráið þátttöku á fie@fie.is í síðasta lagi á hádegi 20. maí. Fundargjald er 2.800 kr.

Þátttaka í morgunverðarfundinum gefur 2 endurmenntunareiningar.

Boðun aðalfundar FIE 25 maí 2016

iialogorvk_01

Hér með boðar stjórn Félags um innri endurskoðun til aðalfundar miðvikudaginn 25. maí 2016, kl. 10-11. Fundurinn verður haldinn í Víkingasal Hótel Natura (gamla Hótel Loftleiðir). Fyrir fundinn mun fræðslunefnd FIE halda síðasta morgunverðarfund vetrarins. Tölvupóstur með nánari upplýsingum um hann verður sendur innan tíðar. Stjórnin minnir á að allir geta boðið sig fram til stjórnarsetu og hvetur þig eindregið til að íhuga það.

Meðfylgjandi eru nánari upplýsingar um aðalfundinn úr samþykktum félagsins:

Aðalfundur

Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal boða skriflega með bréfi eða tölvupósti með 14 daga fyrirvara hið skemmsta. Aðalfundur er lögmætur sé löglega til hans boðað og ræður afl atkvæða úrslitum mála nema annars sé getið í samþykktum þessum. Þessi mál skulu tekin fyrir á aðalfundi:

1.      Skýrsla um störf félagsins á liðnu ári.

2.      Reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar.

3.      Breytingar á samþykktum.

4.      Kosning stjórnarmanna.

5.      Kosning formanna nefnda skv. 7. gr.

6.      Kosning skoðunarmanns annað hvert ár.

7.      Ákvörðun félagsgjalds.

8.      Önnur mál.

Með von um að sjá þig á aðalfundinum,

Stjórn FIE

Ráðstefna um gildi innri endurskoðunar 5. apríl Hótel Reykjavík Natura

Góðir stjórnarhættir, áhættustýring og virkt innra eftirlit eru nauðsynlegir þættir til að ná árangri og stuðla að rekstrarhæfi fyrirtækja til framtíðar. Innri endurskoðun er ætlað að viðhalda og auka virði rekstrar með áhættumiðaðri hlutlausri staðfestingu, ráðgjöf og innsýn á því hvernig staðið er að þessum málaflokkum í daglegum rekstri.

Þriðjudaginn 5. apríl nk. mun Félag um innri endurskoðun (FIE) halda kynningarfund um virði innri endurskoðunar fyrir atvinnulífið. Fundurinn verður haldinn á Icelandair Hótel Reykjavík Natura og er fundartími kl. 08:30 – 09:30

Dagskrá:

  • Ágúst Hrafnkelsson, formaður FIE og innri endurskoðandi Íslandsbanka, opnar fundinn
  • Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Viðlagatryggingar: reynsla framkvæmdastjórans af innri endurskoðun
  • Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs Íslands og formaður endurskoðunarnefndar Icelandair Group: samspil endurskoðunarnefndar og innri endurskoðanda

Fundurinn er öllum opinn, skráning fer fram á fie@fie.is

Næstu viðburðir

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com