Á síðasta aðalfundi var kosin stjórn og hefur hún skipt með sér hlutverkum fyrir komandi starfsár. Skipa þurfti nýjan formann stjórnar þar sem Anna Sif lauk sínum stjórnarstörfum og tók Björg Ýr Jóhannsdóttir við keflinu. Gunnar Ragnarsson hefur tekið við hlutverki samskiptafulltrúa og eru önnur hlutverk stjórnarmanna óbreytt. Sjá einnig hér.
Aðalfundur 2024
Takk fyrir frábæran aðalfund sl. fimmtudag. Aðalfundurinn var haldinn að þessu sinni á Grand hótel í Reykjavík. Anna Sif Jónsdóttir fór með skýrslu stjórnar og Sif Einarsdóttir fór yfir reikninga félagsins. Mjög góð mæting var á fundinn. Kosin var ný stjórn en Anna Sif Jónsdóttir kveður okkur í bili og við þökkum henni kærlega fyrir frábær störf. Gunnar Ragnarsson kemur í stjórn í fyrsta skipti og bjóðum við hann hjartanlega velkominn.
Hér má sjá skýrslu stjórnar og ársreikninginn v. ársins 2023
Nýr fagvottaður innri endurskoðandi – CIA
Jakob Hafþór Björnsson, hlaut CIA fagvottun hjá Alþjóðasamtökum innri endurskoðenda núna í febrúar 2024.
Jakob starfar fyrir ODT (hét áður BDO á Íslandi), ásamt því að vera sjálfstætt starfandi, m.a. við ráðgjöf, almennan fyrirtækjarekstur, innri endurskoðun, tölvuendurskoðun, uppgjör og ársreikningagerð, núvirðisgreining o.fl. Þar áður var hann hjá Jarðborunum og dótturfélögum í Asíu og Nýja Sjálandi þar sem hann sá um rekstur verkefna, samningsmál, gæða- og öryggisúttektir og tilboðsútreikninga, svo eitthvað sé nefnt.
Jakob lauk M.Sc. gráðu í hagfræði frá HÍ árið 2010, með áherslu á fjármál fyrirtækja og kostnaðar- og ábatagreiningu.
Róttæk skýrsluskrif
Það er innri endurskoðendum mikilvægt að vera færir pennar til að geta átt skýr samskipti innan sem utan starfseiningar sinnar. Félag um innri endurskoðun kynnir því í samstarfi við IIA Svíþjóð þetta nýja námskeið með Söru I James sem fer fram fyrir hádegi dagana 12. - 13. september (kl. 7:00 - 11:00). Námskeiðið fer fram á ensku. Þetta námskeið er sérlega vinsælt hjá endurskoðunar-, áhættu- og sviksemisteymum, sem og hjá öðrum sem vilja endurmeta núverandi fyrirkomulag skýrsluskrifa sinna.
Efnistök námskeiðs
Námskeiðið hjálpar þátttakendum að útbúa skýr og sannfærandi skrif með því að yfirfara rökfærslu, orðfæri og eiginlegan tilgang skriflegra samskipta. Þetta námskeið er einstaklega hagnýtt og sniðið að hverjum þátttakanda sem notast við eigin skrif við verkefnavinnu.
Eftir námskeiðið munu þátttakendur geta tjáð sig á skilvirkari hátt gagnvart mismunandi lesendahópum með því að:
- Fara að rótum eigin hugsana, markmiða og forsendna;
- Koma auga á slæmar venjur sem gera skrifleg samskipti erfið aflestrar og illskiljanleg; og
- Nota þekkta aðferðafræði við að koma frá sér skýrum og hnitmiðuðum skrifum.
- Þátttakendur munu geta skrifað skýrslur sem uppfylla þarfir lesenda eftir að hafa æft:
- Að greina bæði heildarskipulag skýrslu sem og einstaka þætti hennar til að ná sem mestum árangri; og
- Fara yfir eigin skrif og annarra á markvissan, skilvirkan og afkastamikinn hátt.
Ítarlegt efni
1. Skýrleiki – kenningin:
- Tengsl milli skýrrar hugsunar og skýrra skrifa
- Hversu skilvirk eru núverandi samskipti?
- Góð skrif og frammistöðutengsl
- Ráð frá fagaðilum – hversu gagnleg eru þau?
2. Skýrleiki – framkvæmdin: Hvernig getum við sagt það sama í færri orðum?
- Minnkum orðagjálfrið
- Virk og óvirk skrif
- Uppvakningar (hvernig má forðast að sjúga lífið úr setningum)
3. Málfræði, greinarmerki og notkun
- Hvers vegna skiptir góð málfræði, greinarmerki og notkun þeirra máli?
- Rökfræði málfræðinnar og lagaleg áhrif illa uppbyggðra setninga
4. Skýrslur
- Hver er tilgangur skýrslu?
- Að skipuleggja eigin hugsanir til að ná fram meiri áhrifum
- Uppbygging góðrar skýrslu
- Niðurstöður, athugasemdir og tillögur til úrbóta
- Samantekt
5. Yfirferð og ritstjórn
- Hvað gerir það að verkum að yfirlestrarferli virkar vel?
- Hverjar eru skyldur beggja aðila?
- Ritstjórnarferlið – gagnleg ráð við að fara yfir skýrslur.
Námskeiðsstjóri: Sara I James
Með yfir 30 ára reynslu af kennslu, ritun, útgáfu og fyrirtækjarekstri í Bandaríkjunum og Evrópu veitir Sara þjálfun í skýrslugerð um allan heim í gegnum fyrirtæki sitt Getting Words to Work(™). Hún hefur skrifað fjölda greina um tungumál og skýrslugerð og haldið framsögu á alþjóðlegum ráðstefnum.
Dagsetningar: 12. - 13. september 2023
Staðsetning: Á vefnum í gegnum Zoom
Tímasetning: 7:00 - 11:00 báða dagana
Verð: 70.000 ISK
CPE: 8
Skráning: http://www.fie.is/skraning
Fram þarf að koma nafn og kennitala þátttakanda og netfang sem viðkomandi mun nota til að taka þátt í gegnum Zoom.
Kennitala greiðanda þarf einnig að fylgja sé hún önnur en hjá þátttakanda.
Námskeiðið fer fram á ensku.
Slóð á námskeið hjá IIA Svíþjóð: https://www.theiia.se/utbildningar_aktiviteter/#!educourse=546674
Breytingar á reglum um endurmenntunareiningum
Félagið vill benda á að IIA er að breyta reglum varðandi endurmenntunareiningar. Helsta breytingin er sú að ef vottun er ekki viðhaldið með endurmenntun rennur hún alfarið út og þarf að taka prófin aftur til að fá endurvottun. Sjá nánar um þetta hér.
Fagvottun í stað faggildingar
Félaginu barst vinsamleg ábending frá Faggildingaráði um að enska orðið 'certification' væri í raun vottun en ekki gilding en Evrópusambandið er með staðla tengda gildingum (e. accreditation). Því hefur stjórn félagsins uppfært allan texta á heimasíðu félagins, fallið frá notkun orðsins faggilding og mun framvegis nota orðið fagvottun.