Laugardaginn 9. júlí sl. barst okkur sú frétt að félagi okkar Ástráður Karl Guðmundsson hefði látist fyrr um daginn eftir skamma dvöl á sjúkrahúsi aðeins 56 ára að aldri.
Ástráður starfaði til margra ára hjá Tollstjóra og gegndi síðustu árin stöðu innri endurskoðanda. Ástráður gerðist félagsmaður í Félagi um innri endurskoðun fljótlega eftir að hann tók við starfi innri endurskoðanda. Hann hafði mikinn áhuga á framgangi innri endurskoðunar sem faggreinar og tók virkan þátt í störfum félagsins. Ástráður tók þátt í störfum alþjóða- og staðlanefndar félagsins um árabil og var formaður nefndarinnar frá árinu 2014 til 2016. Hann tók jafnframt þátt í að koma á samstarfi þeirra sem starfa við innri endurskoðun hjá tollstjóraembættum á Norðurlöndum, en slíkt samstarf er mikilvægt til að byggja upp góða þekkingu og miðla reynslu milli þeirra sem starfa á þessum vettvangi.
Við minnumst Ástráðs, eða Kalla eins og sumum okkar var gjarnt að kalla hann, sem fróðs og skemmtilegs félaga þar sem stutt var í húmorinn. Það var orðin árleg hefð að á aðalfundi legði hann til hækkun félagsgjalda umfram það sem stjórn lagði til og var sú tillaga ávallt felld, þar til á aðalfundinum í vor þar sem breytingartillaga Ástráðs var samþykkt. Á þeim aðalfundi upplýsti Kalli að hann ætlaði að taka sér stutt hlé frá nefndarstörfum til að vinna á heilsubresti, en að hann kæmi að fullum krafti til baka að nýju. Ekki grunaði okkur þá að hann yrði kallaður á braut svo fljótt.
Við fráfall Ástráðs Karls sér Félag um innri endurskoðun á bak góðum félaga. Félagsmenn þakka störf hans og minnast hans með virðingu. Við sendum fjölskyldu hans og vinum hugheilar samúðarkveðjur.
Stjórn Félags um innri endurskoðun