Annar morgunverðarfundur vetrarins verður haldinn á Grand hótel Reykjavík þann 29. janúar næstkomandi. Að þessu sinni verður efni fundarins: „Gagnaleki og gagnastuldur – netöryggi“ og munu tveir sérfræðingar fjalla um efnið hvor með sína nálgun en þeir munu nálgast efnið út frá sjónarhóli innri endurskoðenda og hvaða atriðum þeir þurfa að vera vakandi fyrir í þeim fyrirtækjum þar sem þeir starfa.

Fyrst mun Úlfar Andri Jónasson sérfræðingur í upplýsingaöryggi hjá Deloitte fjalla um hvað innri endurskoðendur þurfa að hafa helst í huga um varnir gegn gagnaleka og gagnastuldi. Fjallað verður um nauðsyn upplýsingaöryggisstefnu fyrirtækja, meðal annars atriða eins og lykilorðastefnu, dulkóðun tölva og snjalltækja. Einnig er komið inn á netárásir og hvernig fyrirtæki geta varist slíkum árásum.

Næstur mun Jón Kristinn Ragnarsson, ráðgjafi í áhættustjórnun, upplýsingaöryggi og upplýsingatækni hjá Capacent fjalla um skýjalausnir. Farið verður yfir hvernig skýja lausnir eru helst notaðar af fyrirtækjum og stofnunum, hverjir eru kostnirnir og hverjar eru hætturnar? Skoðað verður hvað innri endurskoðendur þurfa að hafa í huga nú þegar enn fleiri aðilar leitast við að flytja gögn sín í hið óræða en margumrædda ský.

Fræðslunefnd vonast eftir betri þátttöku á morgunfundinn 29. janúar en síðasta fund þar sem að mati fræðslunefndar er um að ræða efni sem ætti að höfða til allra félagsmanna. Sérstaklega eftir nýjustu fréttir um netárásir á heimasíður íslenskra fyrirtækja.

Fundurinn hefst kl. 8:30 en morgunverður verður í boði frá kl. 8:00. Vinsamlegast skráið þátttöku á fie@fie.is í síðasta lagi á hádegi 27. janúar. Fundargjald er 2.800 kr.

Kveðja, fræðslunefnd

Næstu viðburðir

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com