Fyrsti morgunverðarfundur vetrarins verður haldinn á Grand hótel Reykjavík þann 26. nóvember næstkomandi kl. 8:00.

Við ætlum að rifja upp og kafa nánar í tölvuöryggismál þar sem þau eru orðin mjög viðamikill þáttur í rekstri fyrirtækja og stofnanna.

Að þessu sinni verður efni fundarins: "Reynslan af innbroti og gagnastuldi á heimasíðu Vodafone - netöryggismál af sjónarhóli tölvuhakkarans". Tveir sérfræðingar fjalla um efnið, hvor með sína nálgun.

Kjartan Briem framkvæmdastjóri tæknisviðs Vodafone fer yfir tölvuinnbrotið sem gert var hjá fyrirtækinu á dögunum, hvað þau hafa lært af því og hvernig þau hafa brugðist við.

Kjartan hefur verið framkvæmdastjóri tæknisviðs Vodafone frá því í nóvember 2009, og hefur gegnt stjórnendastöðum á tæknisviði í fyrirtækinu síðan árið 2000. Kjartan hefur haldið nokkur erindi um innbrotið sem hafa verið vel sótt og þótt áhugaverð.

Í framhaldinu tekur Theódór Gíslason til máls en hann er einn af helstu sérfræðingum landsins í tölvuöryggismálum og hefur mikla þekkingu á árásaprófunum, öryggisveikleikum og þróun öryggismála. Theódór starfaði sem ráðgjafi í tölvuöryggismálum hjá TERIS, Capacent og KPMG-ráðgjöf, en í dag er hann einn af eigendum upplýsingaöryggisfyrirtækisins Syndis og sinnir ráðgjöf í upplýsingaöryggi fyrir mörg íslensk og erlend fyrirtæki auk þess að sinna stundakennslu á sínu sérsviði við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Á fundinum mun hann ræða á mannamáli helstu aðferðir tölvuglæpamanna, hvernig þeir verða sífellt færari og hvaða grundvallarreglum þarf að fylgja til að minnka líkur á tölvuinnbrotum.

Þeir félagar þekkja mjög vel til þessara mála og því er mikill fengur að fá þá á morgunverðarfund hjá félaginu.

Fundurinn hefst kl. 8:30 en morgunverður verður í boði frá kl. 8:00. Vinsamlegast skráið þátttöku á fie@fie.is í síðasta lagi á hádegi 24. nóvember. Fundargjald er 2.800 kr.

Næstu viðburðir

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com