1. gr. Nafn félagsins
Nafn félagsins er Félag um innri endurskoðun, skammstafað FIE, og er hér eftir í samþykktum nefnt félagið. Kennitala þess er 670203-5220.
2. gr. Markmið
Markmið félagsins er að efla innbyrðis tengsl og kynningu þeirra sem starfa við innri endurskoðun, vera vettvangur til að styrkja fagleg vinnubrögð, styrkja þróun innri endurskoðunar og faglega umræðu jafnframt því að vera leiðandi rödd stéttarinnar út á við. Félagið er aðildarfélag alþjóðasamtaka innri endurskoðenda, The Institute of Internal Auditors Inc., auk þess tekur það þátt í evrópsku og norrænu samstarfi á sínu sviði.
3. gr. Félagar
Félagar geta orðið allir þeir sem hafa innri endurskoðun að aðalstarfi í fyrirtæki eða opinberri stofnun, þeir sem lokið hafa alþjóðlegu prófi í innri endurskoðun („Certified Internal Auditor“) og/eða öðrum prófgráðum á vegum alþjóðasamtaka innri endurskoðenda og þeir sem áhuga hafa á innri endurskoðun, áhættustýringu, eftirliti og stjórnarháttum.
Stjórn félagsins samþykkir inntöku nýrra félaga.
Félagsaðild fellur niður ef félagi greiðir ekki félagsgjald. Þá er stjórn heimilt að vísa félagsmanni úr félaginu ef hann brýtur reglur félagsins. Áður en stjórn tekur ákvörðun um brottvísun úr félaginu skal viðkomandi gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri með skriflegri greinargerð til stjórnar.
4. gr. Siðareglur
Félagsmönnum er skylt að fara að siðareglum alþjóðasamtaka innri endurskoðenda, en brot á þeim geta varðað viðurlögum í samræmi við reglur alþjóðasamtaka innri endurskoðenda. Vísa skal meintum brotum á reglunum til siðanefndar félagsins, auk þess sem þau kunna að fara til umfjöllunar hjá alþjóðasamtökum innri endurskoðenda.
Stjórn skal skipa formann siðanefndar og setja nefndinni erindisbréf. Nefndin skal taka til umfjöllunar ábendingar um meint brot félagsmanna á siðareglum innri endurskoðenda.
5. grein Aðalfundur
Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal boða skriflega með bréfi eða tölvupósti með 14 daga fyrirvara hið skemmsta. Aðalfundur er lögmætur sé löglega til hans boðað og ræður afl atkvæða úrslitum mála nema annars sé getið í samþykktum þessum.
Þessi mál skulu tekin fyrir á aðalfundi:
- Skýrsla um störf félagsins á liðnu ári.
- Reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar.
- Breytingar á samþykktum.
- Kosning stjórnarmanna.
- Kosning skoðunarmanns.
- Ákvörðun félagsgjalds.
- Önnur mál.
Aukaaðalfund skal kalla saman ef 10% félagsmanna óska skriflega eftir því við stjórn félagsins með dagskrá og skal stjórn boða fundinn með 14 daga fyrirvara hið skemmsta og eigi síðar en 30 dögum eftir að slík beiðni hefur borist stjórn.
6. gr. Starfshættir
Stjórn félagsins skal kosin á aðalfundi sem haldinn skal í maí ár hvert. Kosningar skulu vera skriflegar sé þess óskað. Stjórn félagsins skal skipuð 6 félagsmönnum og skulu þeir skipta með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir hvern aðalfund. Til að stjórnarfundur sé ákvarðanabær skal meirihluti stjórnarmanna sitja fundinn. Atkvæði formanns er oddaatkvæði ef atkvæði falla jafnt. Þátttaka í stjórnarfundi í gegnum fjarfundabúnað er heimil.
Starf stjórnar skal vera ólaunað en stjórn hefur heimild til að greiða fyrir hluta af vinnu formanns fræðslunefndar. Félagið ber kostnað af störfum stjórnar.
Láti stjórnarmaður af störfum á kjörtímabilinu skal boða til félagsfundar skv. 5. gr. og kjósa mann í stjórn til þess að starfa út kjörtímabil þess sem lét af störfum.
Allir félagsmenn hafa rétt til að kjósa á aðalfundi. Stjórnarmenn eru kosnir til eins árs í senn en þó má stjórnarmaður ekki sitja lengur en sex ár samfleytt.
Skoðunarmann skal kjósa til eins árs í senn.
Félagið starfar sjálfstætt og skipuleggur stjórnin starfsemi þess. Reikningsár félagsins er almanaksárið.
7. gr. Nefndir
Félagið skal starfrækja eftirtaldar fastanefndir og eru formenn þeirra stjórnarmeðlimir. Aðrir nefndarmenn eru valdir af formanni hverrar nefndar.
- Alþjóða- og staðlanefnd heldur utan um samskipti við alþjóðasamtök innri endurskoðenda og eftir atvikum aðra erlenda samstarfsaðila félagsins. Nefndin skal einnig fylgjast með þróun alþjóðlegra staðla á sviði innri endurskoðunar.
- Fræðslunefnd skipuleggur fræðslu á vegum félagsins, svo sem morgunverðarfundi, námskeið og smærri ráðstefnur, auk þess að hafa umsjón með upplýsingamiðlum félagsins og útgáfu kynningarefnis.
Nefndirnar skulu vinna störf sín í samráði við stjórn, sem setja skal þeim erindisbréf þar sem starfssvið og heimildir eru nánar tilgreind. Nefndarmönnum er óheimilt að skuldbinda félagið án undangengins samþykkis stjórnar. Stjórn skal boða nefndir á samráðsfund a.m.k. einu sinni á ári.
Stjórn getur ákveðið að setja á laggirnar aðrar nefndir en þær sem að ofan greinir til að sinna sérstökum verkefnum á vegum félagsins. Setji stjórn slíka nefnd á laggirnar skal hún kjósa henni formann og setja nefndinni erindisbréf sem tilgreini starfsvið og heimildir nánar.
8. gr. Faghópar
Stjórn félagsins getur sett á stofn faghópa, til að auka faglegt samstarf innri endurskoðenda á tilteknum sviðum. Stjórn getur skipað umsjónarmenn með slíkum hópum, sem boða fundi og halda utanum störf viðkomandi hóps.
9. gr. Breytingar á samþykktum
Samþykktum þessum má breyta á aðalfundi félagsins og skal í fundarboði geta þeirra breytinga sem tillaga er um. Til þess að breytingar á samþykktum nái fram að ganga þarf 2/3 greiddra atkvæða.
10. gr. Félagsslit
Félaginu verður ekki slitið nema með samþykki 2/3 fundarmanna á aðalfundi enda hafi þess verið getið í fundarboði að fyrir lægi tillaga um félagsslit. Stjórn tekur ákvörðun um ráðstöfun fjár við félagsslit sem þó má ekki renna til félagsmanna heldur skal féð renna til skyldra félaga.
11. gr. Gildistaka
Samþykktir þessar taka gildi eftir samþykkt þeirra á stofnfundi 12. febrúar 2003.
Samþykkt á stofnfundi 12. febrúar 2003. Breytt á aðalfundi 25. maí 2005, á aukaaðalfundi 27. nóvember 2007, á aðalfundi 27. maí 2010, á aðalfundi 21. maí 2014, aðalfundi 28. maí 2019, aðalfundi 27. maí 2021 og aðalfundi 31. maí 2023.