Tíu ára samstarf norrænna innri endurskoðenda í opinbera geiranum

Í júní 2015 hélt IIA Svíþjóð fyrstu Nordic Light ráðstefnuna í Svíþjóð. Forstöðumenn innri endurskoðenda sem starfa í opinbera geiranum á Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum voru boðaðir til að hittast í Johannesbergs kastala.

Norræna ráðherranefndin er opinber samstarfsvettvangur norrænu ríkisstjórnanna. Hún leitar sameiginlegra lausna hvar og hvenær sem löndin geta áorkað meiru í sameiningu ásamt því að hvert land vinni fyrir sig. Því var eðlilegt að innri endurskoðendur Norðurlandanna hittust á Nordic Light ráðstefnunni til að ræða sameiginleg málefni með gagnkvæman ávinning að leiðarljósi.

Árið 2017 var önnur Nordic Light ráðstefnan haldin í Finnlandi um miðjan vetur. Þá hafði NORPIA (e. Nordic public sector internal auditors) tengslanetið borið kennsl á hve ólík löggjöf, úrræði og fyrirkomulag innri endurskoðenda er á milli landanna, svo hópurinn ákvað að safna upplýsingum. Anna Margrét Jóhannesdóttir frá Íslandi stofnaði ritnefnd og leiddi rannsóknina sem aðalhöfundur. Árið 2018 lauk ritnefndin samanburðarrannsókn á innri endurskoðun í opinbera geiranum á Norðurlöndum. Rannsóknin hefur verið birt í Icelandic Review of Politics & Administration (14. bindi nr. 2, 2018) og af Nordiska administrativa förbundets finska avdelning (rf) sem tók þátt í fjármögnun rannsóknarinnar.

Árið 2017 ákváðu Evrópusamtök IIA (ECIIA) að stofna nefnd um opinbera geirann og bauð norræna hópnum sæti í nefndinni. Niina Sipiläinen frá IIA Finnlandi hefur verið fulltrúi norræna hópsins síðan þá. Þriðja ráðstefna Nordic Light var haldin á Íslandi árið 2019 og árið 2020, þegar Covid-19 lokaði heiminum, ákváðu norrænu félög innri endurskoðenda að undirbúa viljayfirlýsingu og formgera þannig þetta norræna samstarf. NORPIA netið var því formgert með samkomulaginu en það starfar alfarið á grundvelli sjálfboðavinnu. Tengslanetið fundar aðallega rafrænt og leitast við að hittast í persónu árlega eða annað hvert ár.

Auk norrænu rannsóknarinnar hóf NORPIA samstarf við vinnuhóp EUROSAI um endurskoðun sveitarfélaga með því að skrifa greinar um innri endurskoðun á sveitarstjórnarstigi. Nokkrum árum síðar undirritaði nefnd ECIIA um opinbera geirann samkomulag við EUROSAI og hóf fyrsta sameiginlega rannsóknarverkefnið sem fjallaði um samstarf ríkisendurskoðenda (SAI) og innri endurskoðenda í ríkisgeiranum. Rannsóknin leiddi í ljós að munur er á milli allra landa. Samstarfið heldur áfram með nýjum sameiginlegum verkefnum og NORPIA tengslanetið styður við þá vinnu.

Tilmæli um heilindi í opinberum rekstri (e. Public Integrity) voru samþykkt af OECD ráðinu þann 26. janúar 2017. Eitt af fjórum gagnasettum fyrir viðmiðum um heiðaleika (árangursríkt innra eftirlit og áhættustýring) inniheldur einnig viðmið fyrir innri endurskoðun. Frá árinu 2017 hefur OECD lokið mati í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi og framkvæmir nú mat á Íslandi. NORPIA tengslanetið hefur rætt niðurstöðurnar og hvernig stjórnvöld hafa brugðist við þessum tilmælum. Gögn fyrir meira en 60 lönd eru aðgengileg til að skoða og hlaða niður af OECD Public Integrity Indicators Portal.

Hingað til hafa sumir af upprunalegu meðlimum NORPIA netsins verið þátttakendur og nokkrir nýir hafa gengið til liðs við það, en IIA Noregi hefur ekki átt fulltrúa síðan 2018. Í nóvember 2025 hittist NORPIA í Stokkhólmi á tveggja daga fundi sem Kristina Hirschfeldt, innri endurskoðandi varnarmálaráðuneytis Svíþjóðar og IIA Svíþjóð stóðu fyrir. Anna Margrét Jóhannesdóttir kynnti uppfærðar upplýsingar um norrænu samanburðar rannsóknina. Nokkrar jákvæðar breytingar hafa átt sér stað, en nokkrar neikvæðar þróanir hafa komið fram innan starfsgreinarinnar. Aukin lýðhyggja og efnahagslægð eru sjaldan góðar fréttir fyrir endurskoðendur í opinbera geiranum, jafnvel þótt það ætti að vera öfugt. Þar sem norrænu ríkisstjórnirnar hafa tilhneigingu til að bera saman viðmið sín á milli þurfa innri endurskoðendur einnig að vita hvað er að gerast í hverju landi. Þess vegna mun spurningalistinn „Risk in Focus“ frá ECIIA einnig ná til opinbera geirans.

Framtíð norræna tengslanetsins? Horft til framtíðar sjáum við enn mikið gildi í því að halda áfram að byggja upp sameiginlega hæfni okkar og innsýn, víkka sjónarhorn og hvetja hvert annað. Nýjar áskoranir, allt frá stafrænni umbreytingu og gagnastjórnun til gagnsæis, varna gegn spillingu og breytinga í regluverki, krefjast sterkra fagfélaga sem læra hvert af öðru og veita innblástur

NORPIA hyggst halda fjórðu Nordic Light ráðstefnuna í náinni framtíð: vettvang til að sameina reynslu, forvitni og hagnýtar lausnir. Við munum halda áfram að hlúa að samstarfi, víkka sjónarhorn okkar og styðja hvert annað við að skila hágæða innri endurskoðunarvinnu til hagsbóta fyrir opinbera geirann og samfélögin sem við þjónum. Við vonum að þessi viðburður geti fært saman eins marga innri endurskoðendur og mögulegt er sem enn starfa í opinbera geiranum.

Höfundur greinar: Niina Sipiläinen, innri endurskoðandi umhverfisráðuneytis Finnlands

Þýtt og staðfært: Anna Margrét Jóhannesdóttir, innri endurskoðandi Vegagerðarinnar og Gréta Gunnarsdóttir, innri endurskoðandi Landspítala

Næstu viðburðir

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com