Innri endurskoðun er líka #Kvennastarf

Útdráttur greinar úr CBOK ritröð IIA sem fjallar um konur í Innri endurskoðun.

Heimild: „Women in Internal Auditing – Perspectives from Around the World“ e. Margaret Christ PhD, CIA.

Í CBOK könnun árið 2015 kom í ljós að konur eru stór hluti innri endurskoðenda á heimsvísu. Hins vegar er töluverður munur á konum og körlum þegar kemur að starfsframa innan stéttarinnar. Hér verður stiklað á stóru og farið yfir það hvar konur standa almennt á heimsvísu, skv. niðurstöðum könnunarinnar og einnig hvernig konur megi  frekar ná árangursríkum starfsframa í innri endurskoðun.

Alls tóku rúmlega 5.400 konur þátt í könnuninni sem jafngildir 38% af heildarsvörun. 31% svarenda í hópi forstöðumanna innri endurskoðunar (þ.e. CAE) voru konur. Hlutfall kvenna var mjög mismunandi á milli einstakra heimshluta en almennt samanstóðu svör kvenna af yngri svarendum í lægri stöðum á móti eldri svarendum meðal karla auk þess sem þeir voru frekar í einhvers konar stjórnendastöðum. Þegar þessi hópur kvenna eldist munu líklega fleiri konur fara í stjórnendastöður, en svör tengd starfsþróun gáfu til kynna að konur væru ólíklegri til að bæta við þekkingu sína í skóla eða innan faglegra sérsviða, auk þess sem þær mátu sjálfar sig lægra en karlar í öllum 10 lykil hæfnisþáttum IIA .Í viðtölum og hringborðsumræðum deildu konur ráðum varðandi velgengni í starfi í innri endurskoðun. Auk tillagna um að leita handleiðslu frá annarri konu í stjórnunarstöðu lögðu þátttakendur frá nokkrum löndum áherslu á mikilvægi þess að byggja upp og viðhalda tengslaneti kvenna í innri endurskoðun. Nokkrar konur lögðu einnig áherslu á mikilvægi þess að vera ákveðnar og skýrar í skipulagningu starfsferils síns.

Kynjamunur

Um allan heim eru karlar fleiri en konur í innri endurskoðun. Undantekning er svæði Norður Ameríku þar sem konur eru 51% starfandi aðila. Kynjamunur er þeim mun meiri eftir því sem æðri stjórnendastöður eru skoðaðar. Starfsframi tekur tíma og skýring á því af hverju kynjamunur er meiri í forstöðumannastöðum en á meðal almennra starfsmanna kann að vera sú staðreynd að fleiri konur en karlar segja skilið við fagið vegna annarra verkefna. Önnur skýring gæti verið sú staðreynd að áður fyrr fóru færri konur út á vinnumarkað og þ.a.l. voru færri konur til staðar til að vinna sig upp í forstöðumannastöður. Tölulegar niðurstöður könnunarinnar styðja þessar kenningar þar sem kvenkyns forstöðumenn í innri endurskoðun eru almennt yngri og með færri ára reynslu en karlkyns forstöðumenn.

Frekari greining á því í hvaða geira konur vinna helst við innri endurskoðun sýndi ekki marktækan mun fyrir félög á opnum markaði, en karlar eru þó líklegri til að starfa hjá einkafyrirtækjum á meðan konur eru í meirihluta í opinbera geiranum, menntastofnunum og hjá félagasamtökum sem rekin eru án hagnaðar­sjónarmiða. Þrátt fyrir það er ekki hægt að tala um yfirgnæfandi karllægan eða kvenlægan geira í innri endurskoðun. Kvenkyns forstöðumenn innri endurskoðunar eru þó líklegri til að starfa fyrir smærri fyrirtæki með staðbundna starfsemi heldur en hjá stórum alþjóðlegum fyrirtækjum.

Kvenkyns forstöðumenn

Samanburður á stærð endurskoðunardeilda og stjórnunarstíla sýndi að flestir kvenkyns forstöðumenn innri endurskoðunar starfa í smáum deildum með þrjá starfsmenn eða færri. Starfshættir eru þó svipaðir hvers kyns sem forstöðumaðurinn er að undanskildum verkfærum til að stjórna og meta gæði þar sem karlar voru líklegri en konur til að notast við samhæft árangursmat (e. balanced scorecard), kannanir á meðal haghafa og rýni samstarfsaðila við mat á gæðum.

Menntunarstig þátttakenda könnunarinnar var svipað, en u.þ.b. 90% beggja kynja eru með masters gráðu eða hærri menntun. Einnig kemur fram að menntun í reikningsskilum er algengasta menntunin, innri endurskoðun er í öðru sæti. Könnunin sýndi enn fremur fram á að konur og karlar eru jafnlíkleg til að ná sér í vottun á sviði innri endurskoðunar, t.d. gráður sem IIA býður upp á, en konur eru ólíklegri en karlar til að vera með einhvers konar sérhæfingu utan hefðbundinnar innri endurskoðunar, s.s tengt áhættustýringu, upplýsingatækni eða sviksemi.

Hringborðsumræður

Þátttakendur í hringborðsumræðum voru sammála um að konur komi með aðra nálgun en karlar og það geti vel nýst í innri endurskoðun svo hagur sé af fyrir fyrirtækið. Kvenleg persónueinkenni eins og hreinskilni og umhyggja geta auðveldað viðmælendum að deila upplýsingum og skapað traust og samstarfsvilja. Konur teljast einnig hafa skilning á nauðsyn þess fyrir alla starfsmenn að hafa jafnvægi á milli einkalífs og vinnu. Þær geta því komið með skapandi lausnir og áherslur á vinnustað til að ná því markmiði. Aukin þörf í samfélaginu fyrir fjölbreytni almennt hefur orðið til þess að í sumum tilvikum hefur sérstaklega verið sóst eftir að fá konu til starfa í innri endurskoðun.

Kvenleg persónueinkenni geta þó einnig reynst vera áskorun fyrir konur í innri endurskoðun. Konur eru oft á tíðum óákveðnari en karlar og geta skort þann samkeppnisdrifkraft sem þarf til að ná langt í starfi. Helstu áskoranir eru að ná jafnvægi á milli einkalífs og vinnu, ná fram samvinnu fólks með mismunandi persónuleika og vinnubrögð, yfirstíga menningarlegar hindranir og fást við skrifstofu-pólitíkina. Þó það virðist sem að áskoranir séu fleiri en kostirnir á heildina litið voru viðmælendur mjög jákvæðir og uppörvandi. Sameiginleg skilaboð þeirra voru að til að ná árangri í starfi þarf kona að vera hugrökk, hæf til starfsins og vinnusöm. Búnum þessum eiginleikum eru konum allir vegir færir í innri endurskoðun.

Eftirmáli:

Lausleg yfirferð á félagatali FIE m.v. haust 2016 leiddi í ljós að konur eru 57% félagsmanna. Sama hlutfall kvenna gegnir forstöðumennsku innri endurskoðunar.

Útdráttur gerður af Grétu Gunnarsdóttur, CIA, sérfræðingi í innri endurskoðun hjá Íslandsbanka.

 

Næstu viðburðir

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com